Fyrir jól fengu nemendur á yngsta stigi marga áhugaverða gesti í skólann til sín sem kynntu störf og fróðleik um himingeiminn. Nemendur æfðu sig í að hlusta vel og spyrja spurninga og ávallt fylgdu nokkrar reynslusögur með á slíkum kynningum. 😉 Öll störf eru mikilvæg og áhugaverð fyrir einhverja einstaklinga, enda höfum við öll mismunandi áhugamál og færni. Við fengum smá innsýn í tónlistarstörf, ritlist, myndskreytingar, háskólakennslu, líffræði, meindýravarnir og vöruflutninga auk þess að fræðast meira um reikistjörnur, stjörnumerki, sól og svarthol. Við þökkum öllum gestum okkar fyrir að gefa sér tíma til að líta til okkar.
Ein af þeim hefðum fyrir jól er að nemendur fá að fara í svokallaðan Tarzan leik í íþróttum. Flestir geta varla beðið eftir tækifærinu, þó að það taki talsverðan tíma fyrir þá sem undirbúa allt sem þarf. Leikurinn er eltingarleikur í gegnum þrautabraut og þeir sem eru hann reyna að ná sem flestum á 2 mínútum. Nokkrar myndir náðust af nemendum í 2.-4.b. meðan þeir hlupu um salinn með bros á vör.
Sjá myndir: Ýmsar myndir frá yngsta stigi - haust/vetur 2023