Forvarnarverkefni gegn skólaforðun

Forvarnarverkefni gegn skólaforðun

Grunnskólarnir á Borgarfirði eystra, Djúpavogi, Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði og Vopnafirði hafa ákveðið að taka upp nýtt verklag varðandi ástundun og mætingu nemenda. Sérstök áhersla er lögð á snemmtæka íhlutun og forvarnir gegn skólaforðun með það að markmiði að greina vanda barna og fjölskyldna áður en vandinn verður langvarandi og bitnar á uppeldis- og þroskaskilyrðum barna. Skilgreining á skólaforðun er:

Skólaforðun er meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í
skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan
skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma. (Kearney, Albano 2007).

Ástæður skólaforðunar eru margvíslegar og skoða þarf hvert tilvik út frá aðstæðum barnsins og fjölskyldu þess og félagslegu samhengi s.s. líðan í skóla, félagsfærni, námsgetu og öðrum þáttum sem geta haft áhrif á umhverfi barns og fjölskyldu.

Snemmtæk íhlutun og samvinna heimilis og skóla eru lykilatriði til þess að koma í veg fyrir að skólaforðun festist í sessi og marki barnið eða unglinginn fyrir lífstíð. Skólaskylda og grunnskólalög leggja þá ábyrgð á herðar foreldra að sjá til þess að börn þeirra og unglingar mæti í skóla. Í 19. gr. grunnskólalaga segir.

Foreldrar bera ábyrgð á námi barna sinna og ber þeim að fylgjast með
námsframvindu þeirra í samvinnu við þau og kennara þeirra… Verði misbrestur á
skólasókn skólaskylds barns, án þess að veikindi eða aðrar gildar ástæður hamli, skal
skólastjóri leita lausna og taka ákvörðun um úrbætur. Jafnframt skal hann tilkynna
barnaverndaryfirvöldum um málið. Skólastjóri skal fara að ákvæðum stjórnsýslulaga
við meðferð málsins.

Í 3. mgr. 18. gr. sömu laga stendur:

Foreldrar skulu hafa samráð við skólann um skólagöngu barna sinna, fylgjast með og styðja við skólagöngu þeirra og námsframvindu og stuðla að því að börnin mæti úthvíld í skólann og fylgi skólareglum. Þeir skulu fá tækifæri til að taka þátt í námi barnsins, svo og í skólastarfinu almennt.

Á Íslandi liggja ekki fyrir rannsóknir á algengi skólaforðunar en bandarískar rannsóknir benda til 5-28% tíðni á hverjum tíma. Nýlegar rannsóknir erlendar og innlendar benda til aukinnar tíðni kvíða hjá börnum og unglingum og vaxandi fjölda barna og unglinga sem eiga erfitt með skólasókn af ýmsum ástæðum. Þar má tiltaka kenningar um of mikla skjánotkun, of lítinn svefn, tengslaleysi og/eða samskiptavanda fjölskyldna sem rót vandans (Rannsóknir og greining, 2018).

Rannsóknir sýna að börn og unglingar sem þróa með sér alvarlega skólaforðun eru í aukinni hættu á að verða undir í lífinu. Þau eiga á hættu að þróa með sér alvarlega félagsfælni og einangrast, eiga erfitt með félagsleg samskipti, eiga á hættu að falla úr námi og glíma því oftar við fátækt þar sem þau hafa ekki aflað sér starfsréttinda eða það sem verra er að þau þróa með sér geðræn vandkvæði sem leiða til vanvirkni, vanda á vinnumarkaði og/eða örorku síðar í lífinu. Tengsl eru á milli skólaforðunar og geðrænna vandkvæða seinna í lífinu ásamt því að viðkomandi eiga oftar í tilfinningalegum erfiðleikum, erfiðleikum í samskiptum við maka síðar á lífsleiðinni og er hættara við öðrum félagslegum vanda s.s. að veita eigin börnum traust og góð uppeldisskilyrði. Þess utan sýna bandarískar rannsóknir tengsl á milli skólaforðunar og afbrotahegðunar og misnotkunar á vímugjöfum. (Wimmer, 2013).

Skóli er vinna sem ber að sinna

Margir foreldrar hafa þörf fyrir leiðbeiningar og stuðning við að setja börnum sínum eðlileg og aldurssvarandi mörk, að fylgja fyrirmælum eftir og þurfa aðstoð við að vera samkvæmir sjálfum sér í því hlutverki sínu að kenna börnum sínum reglusemi og aga. Mikilvægt er að börn alist upp við reglusemi og læri að skóli er vinna sem ber að sinna. Reglusemi snemma á ævinni byggir upp reglusemi seinna á ævinni og styður við seiglu og getuna til þess að standa undir kröfum daglegs lífs.

Samkvæmt bandarískum rannsóknum um viðunandi skólasókn kemur fram að 9 daga fjarvera eða minna er ásættanlegt, 10-17 daga fjarvistir valda áhyggjum og ef fjarvera fer upp í 18 daga eða meira, er mikil ástæða til að hafa áhyggjur. Þessar tölur miða við allt skólaárið sem er u.þ.b. 180 dagar. Niðurstöður þessara rannsókna benda til þess að börn og unglingar sem missa úr skóla, af hvaða orsökum sem það er, eru í aukinni hættu á að heltast úr lestinni námslega, missa félagsleg tengsl við aðra nemendur og starfsfólk skóla. Fjarvera getur gert börn óörugg varðandi það að halda í við bekkjarfélaga og skapað kvíða og vanmátt gagnvart námslegum kröfum. Slíkar upplifanir geta undið upp á sig. Því ættu foreldrar og skólastjórnendur að forðast frí vegna t.d. ferða erlendis á skólatíma og fylgjast náið með aðstæðumnemenda sem glíma við langvarandi veikindi.

 Wimmer (2013) og Ladwig og Khan (2007) telja mikilvægt að foreldrar og skólafólk læri að
þekkja hættumerki hjá barni/unglingi varðandi skólaforðun og að brugðist sé hratt við. Helstu
einkenni eru m.a:

· Óútskýrðar fjarvistir eða seinkomur í skóla.
· Erfiðleikar við að fá barn/ungling í skólann á morgnana þrátt fyrir
engin merki um veikindi.
· Fjarvistir á ákveðnum dögum (próf, halda ræðu, íþróttatími/sund).
· Svefntruflanir, einbeitingarerfiðleikar, depurð eða pirringur.
· Tíðar beiðnir barns/unglings um að hringja heim eða vilja fara heim
á miðjum skóladegi.
· Tíðar beiðnir um að fara til hjúkrunarfræðings á skólatíma, án þess að
barn/unglingur virðist vera veikur.

Margir foreldrar falla í þá gryfju að gefa eftir þegar börn þeirra sýna fælni gagnvart skóla sem er mannlegt þar sem við viljum vera góð við og vernda börnin okkar. Stundum á slíkt rétt á sér ef að vandi barnsins lýsir sér í erfiðleikum í skóla hvort sem er af námlegum eða félagslegum toga sem þá ber að leysa. Ef barnið forðast skólann af öðrum orsökum er mikilvægt að styðja við barnið eftir þörf og að foreldrar aðstoði barnið við að takast á við fælnina eða flóttahegðunina. Hvert og eitt mál er einstakt og þarf að vinna í eftir greiningu á vanda hvers barns. 

Snemmtæk íhlutun og forvarnir

Í ljósi ofannefnds er ástæða til þess að huga vel að nemendum grunnskóla og leggja áherslu á mætingu og ástundun. Forsenda náms er vellíðan í skóla og mikilvægt að foreldrar og kennarar séu vakandi yfir þáttum í fari barna og unglinga sem bent gætu til þess að ástæða sé til að grípa inn í, áður en að vandinn vindur upp á sig.

Nýtt verklag í grunnskólum gerir það að verkum að ef nemendi er kominn með 5% fjarvistir, þá hringir umsjónarkennari heim og lætur foreldra vita. Ástæða fjarvistanna er rædd og mögulegar úrbætur. Námsleg og félagsleg staða nemandans er metin og viðeigandi stuðningur veittur ef þörf er á.

Ef fjarvistir halda áfram og nemandi er kominn upp í 10% fjarvistir, þá eru foreldrar og eftir atvikum nemandi boðaðir á fund með umsjónarkennara og stjórnendum skóla þar sem vandinn er greindur og úrræði til úrbóta rædd. Gerður er skriflegur samningur um úrbætur sem gildir til skamms tíma, 3-4 vikna hið mesta. Ef ekki gengur betur á samningstíma, er máli nemandans vísað til Austurlandsteymisins. Þar sitja sérfræðingar frá skóla, félagsþjónustu og heilsugæslu sem geta boðið meiri stuðning og aðstoð en skólinn einn og sér.

Það er til mikils að vinna að ná fyrir vandann áður en hann verður alvarlegur og langvinnur og hefur mögulega langvarandi áhrif á þroska og framtíðarmöguleika barnsins eða unglingsins. Lang oftast er hægt að snúa þróuninni við með léttvægum aðgerðum og ráðleggingum þegar tekið er á vandanum í upphafi hans.

Skólarnir vonast til þess að nemendur og foreldrar taki nýju verklagi fagnandi og að í sameiningu getum við stuðlað að betri líðan og velferð barna og fjölskyldna á svæðinu.