Um nýliðna helgi fór fram þriðja og lokaumferð Pangea stærðfræðikeppninnar sem árlega er í boði fyrir nemendur í 8. og 9. bekk. Í ár voru skráðir til keppni 2289 nemendur í 8. bekk og 2400 nemendur í 9. bekk. Að fyrri umferðunum tveimur loknum var 98 nemendum er boðin þátttaka í úrslitakeppnina í ár, 50 úr 8. bekk og 48 úr 9.bekk.
Við erum mjög stolt að segja frá því að við áttum fulltrúa í lokakeppninni, Egill Freyr Ólafsson úr 9. bekk komst áfram og hélt til Reykjavíkur að safna í reynslubankann. Hann stóð sig með mikilli prýði í öllum þremur umferðunum og við óskum honum innilega til hamingju með árangurinn.
Á heimasíðu keppninnar segir að markmið hennar sé að: „vekja áhuga hjá ungu fólki á stærðfræði, hvetja þau sem halda að stærðfræði sé of erfið til dáða með því að sýna þeim að þau geti afrekað mikið ef þau reyna, og hvetja efnilegustu nemendurna til áframhaldandi afreka.“ Nánar má lesa um keppnina hér. Keppnin er krefjandi enda eru engin hjálpargögn leyfð og í fyrri umferðunum hafa nemendur 45 mínútur til að leysa 14 miserfið stærðfræðidæmi.
Innilega til hamingju Egill Freyr!