Blómin á þakinu

Jón Hrólfur, fréttaritari í 2. bekk skrifar:

Á yngsta stigi höfum við verið að vinna alls konar verkefni í tengslum við bókina Blómin á þakinu. Nemendur í 1.bekk gerðu myndir af Gunnjónu og dýrunum hennar. Þau hafa líka æft sig með orðavinnu og stafasúpu og lásu um Gunnjónu. Svo deildu þau matarkubbum á milli dýra.

Í 3.bekk lærðu þau líka um dýr. Þau reiknuðu fjölda fóta á dýrum, t.d. hænu og kúm. Sumir bjuggu til torfbæ og blokk. Aðrir bjuggu til spurningaspil o.fl. Þau teiknuðu húsdýr og gæludýr og skoðuðu líka fleiri merkilegar kýr, s.s. Sundkúna Sæunni, Mömmu Mö og Búkollu.

Í 2. og 4. bekkjum völdum við rannsóknarstarf. Sem dæmi gerði tímateljarinn stundatöflu fyrir Gunnjónu í sveit og í borg og tímalínu um ævi Gunnjónu. Orðahöfðingi skrifaði lýsingarorð, nafnorð og safnorð úr sögunni. Málameistarinn tók saman aðalatriðin úr sögunni og þýddi þau yfir á dönsku og fékk þau líka þýdd á grænlensku. Listaljónið skrifaði lista með nöfnum þéttbýlisstaða á Austurlandi og bjó til plakat sem sýnir blómaflokka. Lestrarhesturinn kynnti sér bækur um ömmur, bækur sem gerast í sveit eða borg og bækur sem Brian Pilkington myndskreytti. Bréfdúfur hafa skrifað bréf til að gleðja fólk á Dyngjunni. Þær athuguðu einnig hvaða húsgögn Gunnjóna þurfti að flytja með sér og hvað flutningurinn gæti kostað. Myndamús fann hvar eru torfbæir á Íslandi og skoðaði hvernig þéttbýlisstaðir í heiminum eru merktir á korti. Umhverfisfræðingur skráði hvernig Gunnjóna hugsar vel um umhverfið og bjó til fræðslubækling fyrir hana þegar hún er flutt í borgina, t.d. hvernig á að flokka rusl og þekkja algeng umferðarmerki. Veðurfræðingar gerðu hugarkort og sömdu leikþætti um störf bænda í vondu og góðu veðri. Þeir hafa lært betur um veðurtákn og skoðað veðurspár til að vita hvenær Gunnjónu er óhætt að hafa dýrin á beit á þakinu. Og fréttaritari las fréttir úr sveit og borg, skoðaði fréttir um að nota kúahland fyrir sjampó og skrifaði mest af þessari frétt!