Samstarf leik- og grunnskóla 2019 - 2020

Samstarf Fellaskóla og Hádegishöfða veturinn 2019-2020 

Samstarf Hádegishöfða og Fellaskóla í vetur verður með svipuðu sniði og verið hefur undanfarin ár.

Fyrirkomulag samstarfsins

a)      Grunnskólaheimsóknir verða fyrirferðamesti hlutinn í samstarfinu. Þær gegna lykilhlutverki í því að draga úr þeim skilum sem annars má oft finna á milli leik- og grunnskóla. 6 grunnskólaheimsóknir eru á dagskrá í vetur auk vorskóla og tveggja heimsókna 1. bekkjar í leikskólann. Aðalmarkmiðið með þeim er að nemendur leikskólans kynnist verðandi starfsvettvangi sínum og því starfsfólki sem þar vinnur. Byggt er á fyrri reynslu sem hefur gefist vel, þannig að fyrst hitta nemendur Hádegishöfða 1. bekkinn og umsjónarkennara hans en smám saman færast heimsóknirnar út um skólann og nemendur kynnast öðrum stöðum og öðru starfsfólki, þannig að viss stígandi verði í heimsóknunum. Að sama skapi er gert ráð fyrir stíganda í innihaldi heimsóknanna, það er þeim verkefnum sem fengist er við hverju sinni.

b)     Leikskólaheimsóknirnar þjóna þeim tilgangi að halda sambandi við gamla skólann                     sinn og hitta fyrir leikskólahópinn á þeirra heimavelli ef svo má að orði komast.

c)      Í vetur er einnig fyrirhugað að hittast á „hlutlausu“ svæði t.d. eins og á svokölluðu verndarsvæði fyrir neðan þjóðveginn.

d)     Samstarf kennaranna um innihald námsins í grunnskólahópi leikskólans hefur aukist og miðar að því að þau hafi verkefni við hæfi sem geti undirbúið þau  með markvissum hætti undir grunnskólann. Einnig að koma í veg fyrir ónauðsynlegar endurtekningar þegar í grunnskólann er komið. 19. nóvember munu þeir starfsmenn Fellaskóla og Hádegishöfða sem mest koma að kennslu árganganna hittast og bera saman bækur sínar.

e)      Gert er ráð fyrir að Vorskóli muni starfa með svipuðu sniði og verið hefur.

       f)   Samstarfið verður kynnt eftir því sem við verður komið fyrir viðkomandi

             nemendum, foreldrum þeirra og starfsfólki stofnananna.

g)      Þessir hópar fóru saman á ýmsa menningarviðburði í september og október í tengslum við BRAS barnamenningarhátíð.

Starfsfólk

Þeir sem bera hitann og þungann af grunnskólaheimsóknunum þetta árið eru Sólveig Anna Jóhannsdóttir og Margrét Björk Sigurjónsdóttir frá leikskólanum og svo Harpa Rós Björgvinsdóttir frá grunnskólanum. Einnig munu skólastjórar Hádegishöfða og Fellaskóla, þær Guðmunda Vala Jónasdóttir og Anna Birna Einarsdóttir taka þátt í að undirbúa og halda utan um samstarfið.